Sarpur

Archive for september, 2012

Fjölbraut í Kringlumýri

Ég rakst í dag á athyglisverðan ritdóm í Mogganum um bók Helga Ingólfssonar, ‘Frjálsar hendur’. Einkum fannst mér fróðlegt að sjá hvað sagt er um unglinga sögunnar í ritdómnum.

Aðalpersónan er kennari í framhaldsskóla, og koma nemendur hans nokkuð við sögu. Í ritdómnum segir að sagan lýsi starfi kennara og „… baráttu við algerlega áhugalausa nemendur sem hika ekki við að kæra hvern þann kennara sem vogar sér að fara fram á lærdóm og þögn í skólastofunni.” Í þessum skóla, Fjölbrautaskólanum í Kringlumýri, eru nemendurnir „…vart mælandi á íslenska tungu og nota hvert tækifæri til að klekkja á kennurunum. Sem eru algerlega varnarlausir gagnvart ósvífnum árásum nemenda, því búið er að binda hendur þeirra með öllu þannig að þeir geta hvorki æmt né skræmt þyki þeim of langt gengið.”

Nú veit ég vel að sögur Helga eru gjarnan ærslafengnar. Það má til dæmis sjá í ‘Andsælis á auðnuhjólinu’ og kvikmyndinni ‘Jóhannes’ sem gerð var eftir sögunni, með Ladda í aðalhlutverki. Ég veit líka að tengsl skáldskapar og veruleika eru með ýmsu móti og sjaldnast hrein og bein. Engu að síður þykir mér athyglisvert ef Helgi sögukennari í MR notar þessa útslitnu staðalímynd af unglingum í sögu sinni og styður þannig það fordómafulla viðhorf að unglingar séu upp til hópa húðlöt og ósvífin sníkjudýr. Það er að minnsta kosti ekki í samræmi við mína reynslu, hvorki úr MR né fjölbraut.

Flokkar:Uncategorized

380 afrek

Brúarhlaup á DFSÍ gær voru mörg afrek unnin í heimabæ mínum, Selfossi. Þar var Brúarhlaupið þreytt og 380 manns unnu hver sitt afrekið.

Við hjónin vorum í þessum hópi afreksmanna og hlupum í fyrsta sinn á æfinni í opinberri keppni. Árangurinn var fínn að okkar mati. Úrslitin má sjá á Hlaup.is.

Undirbúningur okkar hefur tekið rúmt ár, með hjálp æfingakerfis sem nefnist í stystu máli „C25k”. Þessi skammstöfun stendur fyrir „Couch to 5 k”, eða „Úr sófanum í 5 kílómetra”. Kerfið er miðað við algjöra byrjendur í hlaupum, sem hentaði okkur vel og hefur nú komið okkur úr sófanum í 5k.

Í Brúarhlaupinu hlupu nú á að giska 380 manns sem fyrr segir. Þetta er allstór hópur. Ég bjóst reyndar við mun meiri þátttöku, ekki síst í skemmri vegalengdunum. Heimamenn voru líka færi en ég hafði búist við. Getur hugsast að þetta hafi ekki verið nógu vel auglýst? Til dæmis sá ég ekki orð um þennan viðburð í Dagskránni og Sunnlenska. Eða er fólk bara orðið svona kulvíst eftir hitasvækju sumarsins?

Flokkar:Uncategorized