Stefnumál Illuga

Menntamálaráðherrar hafa gjarnan einhver stefnumál á takteinum. Helstu hugðarefni Illuga Gunnarssonar virðast vera eftirfarandi:

  1. Stytta framhaldsskólann
  2. ???
  3. ???
  4. ???
  5. ???

Getur einhver hjálpað mér að bæta við þennan lista?

Flokkar:Uncategorized Efnisorð:

Fjölbraut í Kringlumýri

Ég rakst í dag á athyglisverðan ritdóm í Mogganum um bók Helga Ingólfssonar, ‘Frjálsar hendur’. Einkum fannst mér fróðlegt að sjá hvað sagt er um unglinga sögunnar í ritdómnum.

Aðalpersónan er kennari í framhaldsskóla, og koma nemendur hans nokkuð við sögu. Í ritdómnum segir að sagan lýsi starfi kennara og „… baráttu við algerlega áhugalausa nemendur sem hika ekki við að kæra hvern þann kennara sem vogar sér að fara fram á lærdóm og þögn í skólastofunni.” Í þessum skóla, Fjölbrautaskólanum í Kringlumýri, eru nemendurnir „…vart mælandi á íslenska tungu og nota hvert tækifæri til að klekkja á kennurunum. Sem eru algerlega varnarlausir gagnvart ósvífnum árásum nemenda, því búið er að binda hendur þeirra með öllu þannig að þeir geta hvorki æmt né skræmt þyki þeim of langt gengið.”

Nú veit ég vel að sögur Helga eru gjarnan ærslafengnar. Það má til dæmis sjá í ‘Andsælis á auðnuhjólinu’ og kvikmyndinni ‘Jóhannes’ sem gerð var eftir sögunni, með Ladda í aðalhlutverki. Ég veit líka að tengsl skáldskapar og veruleika eru með ýmsu móti og sjaldnast hrein og bein. Engu að síður þykir mér athyglisvert ef Helgi sögukennari í MR notar þessa útslitnu staðalímynd af unglingum í sögu sinni og styður þannig það fordómafulla viðhorf að unglingar séu upp til hópa húðlöt og ósvífin sníkjudýr. Það er að minnsta kosti ekki í samræmi við mína reynslu, hvorki úr MR né fjölbraut.

Flokkar:Uncategorized

380 afrek

Brúarhlaup á DFSÍ gær voru mörg afrek unnin í heimabæ mínum, Selfossi. Þar var Brúarhlaupið þreytt og 380 manns unnu hver sitt afrekið.

Við hjónin vorum í þessum hópi afreksmanna og hlupum í fyrsta sinn á æfinni í opinberri keppni. Árangurinn var fínn að okkar mati. Úrslitin má sjá á Hlaup.is.

Undirbúningur okkar hefur tekið rúmt ár, með hjálp æfingakerfis sem nefnist í stystu máli „C25k”. Þessi skammstöfun stendur fyrir „Couch to 5 k”, eða „Úr sófanum í 5 kílómetra”. Kerfið er miðað við algjöra byrjendur í hlaupum, sem hentaði okkur vel og hefur nú komið okkur úr sófanum í 5k.

Í Brúarhlaupinu hlupu nú á að giska 380 manns sem fyrr segir. Þetta er allstór hópur. Ég bjóst reyndar við mun meiri þátttöku, ekki síst í skemmri vegalengdunum. Heimamenn voru líka færi en ég hafði búist við. Getur hugsast að þetta hafi ekki verið nógu vel auglýst? Til dæmis sá ég ekki orð um þennan viðburð í Dagskránni og Sunnlenska. Eða er fólk bara orðið svona kulvíst eftir hitasvækju sumarsins?

Flokkar:Uncategorized

Gnarrrrr?

Agnes Bragadóttir skrifar athyglisverðan pistil í Moggann í dag. Þar sýnir hún fram á að borgarstjórn Reykjavíkur sé óhæf. Rökin eru þau að það hafi tekið Gnarr og félaga  tvo mánuði að malbika 250 metra vegarkafla í námunda við höfuðstöðvar Morgunblaðsins í Hádegismóum. Þvíkir skussar.

Ég get bætt um betur. Ég þekki dæmi þess að það hafi tekið bæjarstarfsmenn fjögur ár að koma sér að því að gera við vatnsleka í húsagarði, þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir íbúanna. Ég verð hins vegar að hryggja Agnesi með því að þetta dæmi er ekki út Reykjavík, heldur úr sveitarfélaginu Árborg, þar sem sjálfstæðismenn eru við stjórnina. Eru þeir þá meiri skussar en Jón Gnarr?

Auðvitað er umræða á þessu plani út í hött. Mér dettur ekki í hug að dæma verk Eyþórs Arnalds og félaga í Árborg út frá einu dæmi sem betur mætti fara. Vissulega má alltaf ræða forgangsröð og áherslur, en þegar vitað er að peningar eru af skornum skammti þurfa þegnarnir að vera viðbúnir því að einhvers staðar skorti þjónustu. Og hvað sem segja má um Jón Gnarr, þá dettur víst fáum í hug að kenna honum um íslenska efnahagshrunið. Aðrir brandarakarlar voru þar að verki, og afleiðingarnar verri en sem nemur 250 metrum af þvottabretti.

Þetta vita allir, en samt hjakkar þjóðfélagsumræðan áfram í sama rifrildisfarinu. Og fjölmiðlarnir, sem þykjast gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélagi, kynda undir vitleysunni fremur en að sýna gott fordæmi. Hvað skyldi það segja um íslenska blaðamenn?

Flokkar:Uncategorized Efnisorð:

Klappað fyrir meistara

Frétt á visir.isÁ visir.is er sagt frá því með stríðsfyrirsögn að púað hafi verið á skólameistara FSu við setningu skólans í morgun. Hvað er verið að segja með þessari framsetningu? Er þetta rétt?

Nú var ég reyndar viðstaddur skólasetninguna, og sá og heyrði hvað fram fór. Vissulega heyrðist einhver ómur af púi frá einhverjum nemendum, en með fyrirsögninni á vísi er gefið í skyn að um almenna óánægju hafi verið að ræða. Það er fjarri sanni. Margir klöppuðu líka, en þess er reyndar ekki getið á vísi. Hver er tilgangurinn með svo villandi fréttaflutningi?

Vissulega eru fjölmiðlar reknir eins og önnur fyrirtæki, og þurfa peninga til starfsemi sinnar. Hins vegar er varla réttlætanlegt hjá vönduðum fréttamiðli að senda út villandi fréttir eða beinlínis rangar, til þess eins að draga til sín lesendur. Kallast það ekki sorpblaðamennska á góðri íslensku?

Flokkar:Uncategorized Efnisorð: