Sarpur

Archive for ágúst, 2012

Gnarrrrr?

Agnes Bragadóttir skrifar athyglisverðan pistil í Moggann í dag. Þar sýnir hún fram á að borgarstjórn Reykjavíkur sé óhæf. Rökin eru þau að það hafi tekið Gnarr og félaga  tvo mánuði að malbika 250 metra vegarkafla í námunda við höfuðstöðvar Morgunblaðsins í Hádegismóum. Þvíkir skussar.

Ég get bætt um betur. Ég þekki dæmi þess að það hafi tekið bæjarstarfsmenn fjögur ár að koma sér að því að gera við vatnsleka í húsagarði, þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir íbúanna. Ég verð hins vegar að hryggja Agnesi með því að þetta dæmi er ekki út Reykjavík, heldur úr sveitarfélaginu Árborg, þar sem sjálfstæðismenn eru við stjórnina. Eru þeir þá meiri skussar en Jón Gnarr?

Auðvitað er umræða á þessu plani út í hött. Mér dettur ekki í hug að dæma verk Eyþórs Arnalds og félaga í Árborg út frá einu dæmi sem betur mætti fara. Vissulega má alltaf ræða forgangsröð og áherslur, en þegar vitað er að peningar eru af skornum skammti þurfa þegnarnir að vera viðbúnir því að einhvers staðar skorti þjónustu. Og hvað sem segja má um Jón Gnarr, þá dettur víst fáum í hug að kenna honum um íslenska efnahagshrunið. Aðrir brandarakarlar voru þar að verki, og afleiðingarnar verri en sem nemur 250 metrum af þvottabretti.

Þetta vita allir, en samt hjakkar þjóðfélagsumræðan áfram í sama rifrildisfarinu. Og fjölmiðlarnir, sem þykjast gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélagi, kynda undir vitleysunni fremur en að sýna gott fordæmi. Hvað skyldi það segja um íslenska blaðamenn?

Flokkar:Uncategorized Efnisorð:

Klappað fyrir meistara

Frétt á visir.isÁ visir.is er sagt frá því með stríðsfyrirsögn að púað hafi verið á skólameistara FSu við setningu skólans í morgun. Hvað er verið að segja með þessari framsetningu? Er þetta rétt?

Nú var ég reyndar viðstaddur skólasetninguna, og sá og heyrði hvað fram fór. Vissulega heyrðist einhver ómur af púi frá einhverjum nemendum, en með fyrirsögninni á vísi er gefið í skyn að um almenna óánægju hafi verið að ræða. Það er fjarri sanni. Margir klöppuðu líka, en þess er reyndar ekki getið á vísi. Hver er tilgangurinn með svo villandi fréttaflutningi?

Vissulega eru fjölmiðlar reknir eins og önnur fyrirtæki, og þurfa peninga til starfsemi sinnar. Hins vegar er varla réttlætanlegt hjá vönduðum fréttamiðli að senda út villandi fréttir eða beinlínis rangar, til þess eins að draga til sín lesendur. Kallast það ekki sorpblaðamennska á góðri íslensku?

Flokkar:Uncategorized Efnisorð: