Ég er heppinn

Það er sunnudagsmorgunn. Ég er með Loka úti að hjóla, sem varla er í frásögur færandi. Það er verslunarmannahelgi og mikið um að vera í bænum. Loki er hundurinn á heimilinu, þriggja ára svartur labrador, og hann hjólar reyndar ekki, heldur skokkar við hliðina á hjólinu mínu.

Þegar við komum á móts við nýja tjaldsvæðið, þar sem gestir unglingalandsmótsins eru að tygja sig til átaka dagsins, er lítill snáði, á að giska fjögurra ára, á hjóli á göngustígnum. Hann er á fínu torfæruhjóli og vel búinn til útiveru, með bláa skuplu undir hjólahjálminum, en virðist eitthvað ráðvilltur. Þegar nær kemur sé ég að hann var volandi og tautar eitthvað við sjálfan sig. Við Loki stoppum hjá honum, og þó Loka sé yfirleitt ekki vel við ókunnuga krakka skynjar hann alvöru málsins og heldur sig á mottunni.

Ég spyr snáðann hvað sé að; held að hann rati kannski ekki heim til sín, og ég geti gert eitthvað í málinu. Nú fyrst fer hann að gráta fyrir alvöru svo tárin hrynja niður kinnarnar. Svo segir hann með alvöruþunga: „Það vill enginn leika við mig.” Þetta lítur ekki vel út, mitt í allri stemmingunni á tjaldsvæðinu handan vegarins þar sem allir eru í liði og komnir til að styðja sína menn til dáða. Ég hugsa málið og spyr einhverra tilgangslausra spurninga sem ekki bæta neitt úr skák. Sálusorgun hefur aldrei verið mín sterka hlið.

Smám saman kemur í ljós hvað er að. Viktor vildi ekki leika. Sá litli átti reyndar fleiri vini, en rataði ekki til þeirra á hjólinu, og ef hann þyrfti að ganga heim til þeirra yrði hann allt of þreyttur í fótunum. Ég spurði hvort pabbi og mamma gætu hjálpað, en hann taldi ekkert gagn í þeim. Ekki var bróðir hans betri þó hann væri orðinn fjórtán. Ég spurði hvort þetta myndi ekki lagast, en hann hélt ekki.

Ég spurði líka hvort Viktor gæti kannski leikið við hann seinna; hann væri líklega ekki almennilega vaknaður. Hann var ekki bjartsýnn á það: „Hann Viktor er allsber heima og gerir ekkert annað en að glápa inn í þetta sjónvarp.”

Mér skildist loks að áfallahjálp mín væri lítils virði. Ég sagðist halda að þetta myndi lagast. Hann var ekki bjartsýnn á það. Ég kvaddi og við Loki héldum áfram okkar leið. Sá litli hélt áfram að gráta og tala við sjálfan sig: „Það vill enginn vera með mér og … og… og…”

Vonandi fer Viktor að klæða sig og slökkva á bannsettu sjónvarpinu. Vonandi tekur vinur Viktors gleði sína. Ég er lukkunnar pamfíll. Loki horfir ekki á sjónvarp. Og þegar enginn vill vera með mér er hann alltaf til í að leika.

  1. Engar athugasemdir ennþá.
  1. No trackbacks yet.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: