Auður og öfund

Stefán E. Stefánsson blaðamaður skrifar athyglisverðan pistil í Moggann 30. janúar sl. undir heitinu „Auðsöfnun og misskipting“. Þar gagnrýnir hann hugmyndir sem víða megi nú sjá í fjölmiðlum um að misskipting sé að aukast í heiminum og að aukin auðsöfnum þeirra ríkustu komi niður á hinum sem búa við kröpp kjör. Niðurstaða hans er: „Ríkidæmi eins þarf ekki að leiða af fátækt annarra.“ Þetta er vissulega rétt, svo langt sem það nær.

Stefán tekur dæmi af einum mesta auðmanni okkar tíma, Mark Zuckerberg stofnanda Facebook. Hann varð víst nýlega sjötti ríkasti maður heims vegna þess að fésbókarhlutabréfin hækkuðu. Þetta mun hafa gerst án þess að neitt væri tekið frá neinum. Því telur Stefán hæpið að túlka það sem aukna misskiptingu að nú þurfi aðeins eignir 62 mestu auðmanna veraldar til að jafnast á við eignir þess helmings mannkyns sem minnst á, sem árið 2010 hafi þurft 382 félaga í auðmannastétt til. Gott og vel.

Það getur vel verið rétt hjá Stefáni að enginn hafi tapað á auðsöfnun Zuckerbergs. Í raun ætti það að vera flestum gleðiefni þegar frumkvöðlar efnast á verkum sem ýta undir velmegun og framfarir. Hver getur haft horn í síðu manna eins og Össurar Kristinssonar sem efnaðist á uppfinningum og hjálpaði jafnframt fötluðum að takast á við lífið? Eða Bjarkar Guðmundsdóttur sem efnast á því að auðga menningu heimsins með tónlist sinni? En er þetta fólk dæmigert fyrir auðkýfinga heimsins?

Dæmið af fésbókarmanninum er að sjálfsögðu gott og gilt, en spurningin er hversu mikla þýðingu það hefur í stóra samhenginu. Hversu dæmigerður er auðmaðurinn sem efnast á verkum sínum, án þess að taka neitt frá neinum? Þó tækifærin til uppfinninga og framfara virðist stundum ótakmörkuð, þá er það samt sem áður staðreynt að auðlindir jarðarbúa eru að flestu leyti takmarkaðar. Það á til dæmis við um vatn, súrefni, ræktarland, olíu, fisk og nánast hvaðeina sem er okkur nauðsynlegt til að lifa af. Hver sá sem hrifsar til sín stærri skerf af þessum nauðsynjum en góðu hófi gegnir er því í raun að ganga á hlut annarra, svo framarlega sem markmiðið er ekki að nýta þær á sjálfbæran hátt í þágu heildarinnar.

Tökum sem dæmi útgerðarmanninn sem selur kvótann „sinn“ burt úr byggðarlaginu. Hann „á“ þennan kvóta og nýtur því hagnaðarins af honum. Jafnframt vill svo til að hann er að taka lífsafkomuna frá því fólki sem kynslóð eftir kynslóð hefur lifað á sjósókn í plássinu og skapað þá veiðireynslu sem kvótinn byggðist á? Er ekki hugsanlegt, og meira að segja líklegt, að ríkidæmi þessa manns leiði af sér fátækt þeirra sem missa lifibrauðið af hans völdum?

Tökum annað dæmi. Tökum lykilstarfsmann í íslenskum banka fyrir hrun sem var svo dýrmætur starfskraftur að helsta áhyggjuefni hans var að finna upp á einhverju nógu fáránlega rándýru til að eyða laununum í. Hvaðan komu þessi auðæfi? Urðu þau til í bankanum? Væntanlega samkvæmt skilningi auðmanna, en þegar til kastanna kom var snilld þessa manns svo dýrmæt að allt fór á hvínandi hausinn og íslenskur almenningur þurfti að taka skellinn. Sjaldan hafa jafn fáir auðmenn hjálpað svo mörgum til aukinnar fátæktar.

Því miður koma íslenskir athafnamenn fæstir undir sig fótunum af eigin rammleik. Best þykir þeim að fá eitthvað á spottprís, helst frá ríkinu gegnum valdamikla vini, og selja það svo áfram á toppprís án þess borga neitt úr eigin vasa né leggja nokkuð af mörkum sjálfir annað en það mikla hugvit sem byggir á spillingu og braski. Hér þarf ekki að rifja upp nein dæmi, svo algeng eru þau allt í kringum okkur. Borgun heitir það nýjasta. Vonandi þarf ekki að rökstyðja að einhver tapi á því að ríkið gefi eigur sínar þó það sé gert í þeim göfuga tilgangi að koma fótum undir upprennandi braskara.

Reyndar trúa íslenskir auðmenn því að í sumum tilfellum sé uppspretta auðs takmörkuð. Það á sérstaklega við þegar launafólkið er með vesen og suðar um launahækkanir. Þá er mikið rætt um þjóðarhag, þenslu og holskeflur ef launin eiga að nálgast framfærsluvísitölu. Þessum hugtökum er aldrei veifað þegar auðmenn og stéttbræður þeirra skera sér geira af þjóðarkökunni, eða hvaða kaka það nú er sem þeir skipta með sér. Hvað gæti valdið því?

Fyrrnefndur greinarhöfundur telur að „hið dulda öfundargen“ valdi því að fólk skilji ekki að ríkidæmi eins þarf ekki að leiða af fátækt annarra. Er það þá öfundargenið sem kemur í veg fyrir að fólkið í þorpinu geti glaðst með útgerðarmanninum sem selur kvótann? Er það öfundargenið sem slær launafólk blindu svo það skilur ekki hvernig ofurlaun ógna ekki þjóðarhag eins og þeirra eigin sultarlaun? Og er það sama gen sem eitrar gleði íbúa í þróunarlöndum þegar við ríku þjóðirnar höldum áfram að ræna þá auðlindunum eins og við höfum gert um aldir? Megi þá öfundin lifa.

Í draumalandi hins frjálsa framtaks verður auðurinn til vegna góðra verka athafnamanna og frumkvöðla. Ríkidæmi eins þarf þá ekki að leiða af fátækt annarra, eins og Stefán segir. Þannig er skipulagið í besta heimi allra heima. En, öfugt við það sem margir halda, þá erum við ekki þar.

%d bloggurum líkar þetta: