Elliblokkin mín

Ég er fyrir nokkru kominn á elliblokkaraldurinn, gjaldgengur í húsum sem ætluð eru fólki 55 ára og eldra. Ég er því farinn að velta því fyrir mér hvers konar gamlingjageymsla væri mér að skapi. Niðurstaðan er að sá helgi steinn sé enn ófundinn.

Hér á landi eiga fjölbýlishús fyrir eftirlaunafólk einkum eitt sameiginlegt: Íbúðirnar eru dýrar. Hátt verð er réttlætt með því að mikil þjónusta sé í boði. En hvers konar þjónusta er það? Þar sem ég þekki til er aðallega um að ræða samkomusali annars vegar og rými fyrir þjónustu á borð við snyrtistofur hins vegar. Samkomusalirnir eru sjaldnast nýttir af íbúunum, heldur leigðir út til samkomuhalds, og snyrtistofur eru hvort sem er á hverju götuhorni svo ástæðulaust er að byggja yfir slíka þjónustu á kostnað eldri borgara sem greiða hana hvort eð er fullu verði. Þar að auki má efast um að snyrting sé þessu fólki svo mikilvæg að hún þurfi að vera innan seilingar.Hvort tveggja er því baggi á íbúunum án þess að auka lífsgæði þeirra að neinu marki.

Hvað á þá að vera í elliblokkinni minni? Bar? Spilavíti? Súlustaður? Nei, þetta allt mun ég sækja utan húss ef löngun og heilsa leyfir. Það sem íslenskir gamlingar þrá miklu fremur en veislusali og snyrtistofur er dagleg afþreying og hreyfing í notalegu umhverfi, gjarnan í félagsskap samborgara sinna. Þess vegna flykkjast þeir nú orðið í knattspyrnuhallir á veturna til að spássera. Og þess vegna hafa þeir líka hópast til Kanaríeyja um langt skeið til að njóta mannlífs, útiveru og notalegra veðurskilyrða.

En hvernig væri hægt að uppfylla þessa þörf í elliblokkinni minni? Einfaldasta leiðin er að sleppa samkomusalnum og öðrum óþarfa, en koma í staðinn fyrir stóru gróðurhúsi, til dæmis í miðju húsinu. Þá mætti byggja blokkina utan um gróðurhúsið þannig að svalir íbúðanna yrðu undir sameiginlegu þaki í stað þess að hver og einn lokaði sínum svölum eins og algengt er nú, með tilheyrandi einangrun og tilkostnaði. Því fleiri íbúðir, þeim mun stærra gróðurhús. Með þessu skipulagi yrði til stórt rými undir glerþaki þar sem rækta mætti suðrænni gróður en utan húss, og skapa aðstæður til gönguferða og “útiveru” innan húss þegar nepja, snjófjúk eða svellalög ríkja hið ytra.

Nú gætu einhverjir efast um að fólk vildi nýta slíka aðstöðu að nokkru marki. Þá má rifja upp að einn fjölsóttasti veitingastaður landsins um langt skeið, Eden í Hveragerði, byggði aðdráttarafl sitt á þeirri einföldu formúlu að bjóða gróið umhverfi þar sem hægt var að setjast niður og gúffa í sig ís eða kaffi og kökum. Samt var húsið sjálft óttalegur kumbaldi. En eftir að ruglaðir gróðapungar klúðruðu þessari þrælsnjöllu viðskiptahugmynd hafa gróður- og kaffiþyrstir Íslendingar ekki í nein hús að venda vetrarlangt í sunnudagsbíltúrnum og ellibelgirnir kúldrast innan dyra þangað til þeir komast til Kanarí, sem kostar nú aldeilis skildinginn eins og kunnugt er.

Ég er strax farinn að hlakka til að flytja í elliblokkina mína. Þá get ég farið út á svalirnar mínar á morgnana með minni heitt elskuðu að lesa blaðið og fylgjast með mannlífinu. Kannski skokkum við einn hring í garðinum undir hádegi. Svo fær maður sér kaffi í góðra vina hópi í kaffihorninu undir pálmatré. Jafnvel öllara undir kvöld. Þegar við þurfum að láta snyrta á okkur tærnar tökum við strætó niður í bæ. Og þegar við snúum þessum sömu tám upp í loft þurfum við ekki að eiga salinn þar sem erfidrykkjan verður haldin.

  1. Laufey Egilsdóttir
    29.9.2012 kl. 23:11

    Það er mikill sannleikur í þessu.

  2. Kristín Ólafsdóttir
    30.9.2012 kl. 10:24

    ég kæmi í þessa elliblokk ekki spurning ef mér endist aldur til 🙂

    • Laufey Egilsdóttir
      1.10.2012 kl. 13:06

      Íbúðirnar eru alltof dýrar……..skömm að því.

  3. Ásbjörg Ingólfsdóttir
    30.9.2012 kl. 11:05

    Mikið er ég sammála þessu.

  4. Sigrún Lovísa Sigurðardóttir
    30.9.2012 kl. 11:17

    Svo væri gott að það væri innangengt yfir í Vesturbæjarlaugina 🙂

  5. Lydia Angelica
    30.9.2012 kl. 15:23

    Eg ætla líka í þessa elliblokk líst þrælvel á hana

  6. Snjólaug
    30.9.2012 kl. 16:37

    Èg er svo innilega sammála þér! Við þurfum að hafa áhrif áður en við verðum of gōmul til að nokkur hlusti á okkur.

  7. Elísa Guðjónsdottir Gereaux,
    30.9.2012 kl. 20:23

    Gísli minn, þetta er besta hugmyndin um eldri borgara blokk sem ég hef nokkurntíma heyrt, Húrra!!!!

  8. Sæunn erna Sævarsdóttir
    1.10.2012 kl. 11:17

    Algjör snild,er viss um að foreldrar mínir mundu sækja strax um og við skötuhjúinn líka 🙂

  9. Þuríur Ingvarsdóttir
    3.10.2012 kl. 18:07

    Þegar það er búið að byggja svona blokk ætla ég að kaupa mér íbúð í henni…….

    Það þarf engar innanhúss þjónustu við erum ekki að flytja á altæka stofnun þó við verðum fullorðin. Ég sé þetta alveg í hyllingum með kaffið og blaðið gróðurinn og huggulegheitin … og fara svo í líkamræktarsalinn í kjallaranum hahahahahaha…… það held ég að okkar kynslóð komi til með að vilja……….
    FRÁBÆR HUGMYND nú þarf bara einhvern til að framkvæma hana…….

  10. Þórhallur Jósepsson
    4.10.2012 kl. 20:55

    Minnir að sé einmitt svona hús – ekki mjög stórt að vísu, en alveg eftir lýsingunni – í Þorlákshöfn.

  11. FEB
    30.9.2017 kl. 10:14

    Hér er unnið að mestu eftir því sem hér kemur fram. Byggingar FEB Félags eldri borgara í Reykjavík. http://feb.is/wp-content/uploads/2016/03/20160602-Forteikningasett_.pdf

  1. No trackbacks yet.

Skildu eftir svar við Laufey Egilsdóttir Hætta við svar